Greining Glitnis segir, að sú niðurstaða kosninga í Hafnarfirði að hafna stækkun álvers Alcan í Straumsvík hafi í för með sér að meiri líkur en ella eru á tiltölulega mjúkri lendingu hagkerfisins, vextir taki að lækka fyrir árslok og verðbólga verði í námunda við markmið Seðlabanka á komandi misserum.
Greining Glitnis segir, að mikilvægt sé að hagkerfið fái ráðrúm til að jafna sig eftir mikið þensluskeið og hætt sé við að stækkun í Straumsvík, sem hefði að líkum hafist af fullum krafti í kring um næstu áramót, hefði slegið aðlögun hagkerfisins að jafnvægi á frest og aukið hættu á harðari skelli seinna meir.
Glitnir segir, að niðurstaðan í Hafnarfirði auki raunar líkur á álveri í Helguvík á næstu misserum að mati okkar. Hins vegar hafi þær framkvæmdir mun minni áhrif á efnahagsþróun næsta kastið en Straumsvíkurstækkun hefði haft.