Bandaríski olíuforstjórinn Ray Irani hafði samtals sem svarar tæpum 27 milljörðum íslenskra króna í laun á síðasta ári, og mun þetta nálgast met í bandaríska viðskiptalífinu, að því er fréttastofa Reuters greinir frá. Irani er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Occidental Petroleum.
Stærstur hluti greiðslnanna til Iranis, eða 18 milljarðar, voru kaupréttur sem hann ávann sér 1997-2006, alls rúmlega 7,1 milljón hluta, að því er segir í ársskýrslu fyrirtækisins, er lögð var fram í síðasta mánuði.
Að því er Wall Street Journal segir hafa fáir forstjórar fengið jafn mikið greitt á einu ári. Larry Ellison, forstjóri Oracle, fékk greitt sem svarar rúmum 47 milljörðum 2001, er hann nýtti sér kauprétt, og fyrrverandi forstjóri Walt Disney, Michael Eisner, fékk sem svarar 38 milljörðum 1998, að því er blaðið segir.