Verð á hráolíu lækkaði í morgun þegar viðskipti hófust í Asíu á ný eftir páskana. Er það aðallega rakið til þess að Íranar létu 15 breska sjóliða lausa úr haldi fyrir páska. Það dró hins vegar úr verðlækkuninni, að birgðastaða eldsneytis í Bandaríkjunum er frekar lág um þessar mundir.
Verð á hráolíu á markaði í New York lækkaði um 42 sent í morgun og er 63,86 dalir tunnan. Verð á Brent Norðursjávarolíu lækkaði í Lundúnum um 33 sent og var 67,91 dalur.