Moody's lækkar lánshæfiseinkunn íslensku bankanna

Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's tilkynnti í kvöld, að það hefði lækkað langtímalánshæfiseinkunn íslensku viðskiptabankanna þriggja, Glitns, Kaupþings og Landsbankans, um þrjá flokka, úr Aaa í Aa3. Er þetta gert eftir endurskoðun á aðferðafræði við einkunnargjöf fyrir banka og felast breytingarnar í því að utanaðkomandi stuðningi er gefið minna vægi en áður en fjárhagslegur styrkur viðkomandi banka vegur þyngra.

Breytt aðferðafræði Moody's olli því að langtímalánshæfismat íslensku bankanna var hækkað 23. febrúar síðastliðinn. Nýja aðferðarfræðin sætti hins vegar harðri gagnrýni og ákvað Moody's því að endurskoða hana. Tilkynnti fyrirtækið fyrir páska, að lánshæfiseinkunn 46 banka, þar á meðal íslensku bankanna, yrði endurskoðuð og hugsanlega lækkuð.

Í tilkynningu Moody's í kvöld kemur fram, að lánshæfiseinkunn 44 banka hefði verið lækkuð, þar af 29 um einn flokk, 12 um tvo flokka og íslensku bankanna þriggja um þrjá flokka. Einkunn tveggja banka var óbreytt.

Þrátt fyrir lækkun lánshæfiseinkunnarinnar nú er einkunn íslensku bankanna hærri en hún var fyrir hækkunina í febrúar en einkunnin var þá A1 og A2 og hækkaði um fjóra til fimm flokka eftir bönkum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK