Sænskir arkítektar unnu samkeppni um nýjar höfuðstöðvar Glitnis

Tillaga að nýjum höfuðstöðvum Glitnis.
Tillaga að nýjum höfuðstöðvum Glitnis.

Sænska arkitektastofan Arkitekthuset Monarken í Stokkhólmi hlaut 1. verðlaun í samkeppni um mótun tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir lóðirnar Kirkjusand 2 og Borgartún 41, sem eru að stærstum hluta í eigu Glitnis, og gera tillögu að nýjum höfuðstöðvum fyrir Glitni. Verðlaunaféð var 50.000 evrur eða um 4,5 milljónir króna.

Þýska arkitektastofan Cityförster, Netzwerk für Architektur og íslenska arkitektastofan ASK arkitektar deildu með sér 2.-3. sæti og fékk hvor um sig 20.000 evrur í verðlaun eða um 1,8 milljónir króna. Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis og formaður dómnefndar, afhenti viðurkenningar í núverandi höfuðstöðvum Glitnis á Kirkjusandi. Alls bárust 42 tillögur á fyrra þrepi samkeppninnar frá keppendum í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Samkeppnin var í samræmi við samkeppnisreglur Arkitektafélags Íslands og unnin í góðu samstarfi við félagið. Á fundi dómnefndar 16. nóvember síðastliðinn var ákveðið að taka 39 tillögur til dóms og dómnefnd valdi svo sex tillögur til áframhaldandi þátttöku á síðara þrepi. Var þeim skilað inn að nýju 16. febrúar.

Ákveðið var að veita öllum sex tillöguhöfundum á síðara þrepi viðurkenningu að fjárhæð 30.000 evrur eða um 2,7 milljónir króna. Þær sex tillögur sem fengu viðurkenningar voru frá Arkþing ehf. og Arkitema á Íslandi, Cityförster, Netzwerk für Architektur í Þýskalandi, Arkís ehf. á Íslandi, Arkitekthuset Monarken i Stockholm AB í Svíþjóð, ASK arkitektum á Íslandi og Architecture sp. zo.o. í Póllandi.

Nú tekur við vinna að skipulagi í samráði við borgaryfirvöld og íbúa og mun tillagan breytast eitthvað frá núverandi útfærslu. Verðlaunatillögurnar verða til sýnis í anddyri nýju Laugardalshallarinnar frá og með föstudeginum 13. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK