Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) segir, að staða efnahagsmála í heiminum sé sterk og útlit sé fyrir lengsta samfellda hagvaxtarskeið frá því í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar. Gerir IMF ráð fyrir að hagvöxtur í heiminum verði að meðaltali 4,9% bæði á þessu og næsta ári, sem þýðir samfelldan hagvöxt í að minnsta kosti sex ár. IMF spáir 1,9% hagvexti á Íslandi á næsta ári.
Simon Johnson, aðalhagfræðingur IMF, sagði á blaðamannfundi þar sem ný efnahagsskýrsla sjóðsins var kynnt, að útlitið sé að mestu leyti gott þrátt fyrir samdrátt á fasteignamarkaði í Bandaríkjunum og nokkurn óróleika á fjármálamörkuðum. Sagði Johnson, að hagvöxturinn nú væri mun almennari en var fyrir rúmum þremur áratugum og nefndi einkum Kína og Indland. Þá er útlit fyrir að verg landsframleiðsla í Evrópulöndum aukist meira en í Bandaríkjunum.
Johnson sagði, að þótt Bandaríkin hafi hnerrað, eins og hann orðaði það, sé það ekki öflugur hnerri og áhrifin eru ekki talin verða mikil.
Ekki er sérstaklega fjallað um Ísland í skýrslunni en í töflum, sem fylgja með, kemur fram að IMF gerir ráð fyrir 1,9% hagvexti árið 2008; tala fyrir þetta ár er ekki birt. Sjóðurinn gerir ráð fyrir 4,5% verðbólgu á þessu ári og 3% á því næsta og að atvinnuleysi verði í kringum 2%. Viðskiptahalli er áætlaður 12% af landsframleiðslu á þessu ári og 11,5% á því næsta og er hvergi jafn mikill í þeim löndun, sem fjallað er um í skýrslunni.
IMF gerir ráð fyrir 2,2% hagvexti í Bandaríkjunum í ár, samanborið við 3,3% á síðasta ári, 2,3% hagvexti að jafnaði á evrusvæðinu og 2,3% hagvexti í Japan.