Stofnvísitala þorsks lækkar um 17% á milli ára

Þorskur í kassa.
Þorskur í kassa. AP

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (vorrall) fór fram í 23. sinn dagana 27. febrúar til 20. mars s.l. Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnuninni lækkaði stofnvísitala þorsks um 17% frá mælingunni 2006 og er nú svipuð og árin 2000-2002. Lækkun stofnvísitölunnar frá fyrra ári má einkum rekja til þess að minna fékkst af ungfiski af árgöngum allt frá árinu 2001.

Samkvæmt Hafrannsóknarstofnuninni kemur þetta vel fram í lengdardreifingu þorsksins sem sýni að mun minna er nú af 30-50 cm þorski en undanfarin ár. Mest fékkst af þorski á Vestfjarðamiðum, djúpt út af Norður- og Norðausturlandi og í Hvalbakshalla fyrir suðaustan land.

Fram kemur í tilkynningu að aldursgreiningu sé nú lokið. Fyrsta mat á stærð 2006 árgangs bendir til að hann sé slakur og að svipaðri stærð og 2005 árgangurinn eða um 130-140 milljónir þriggja ára nýliða. Árgangurinn frá 2004 mælist sem fyrr mjög lélegur eða um 60-80 milljónir. Almennt virðist stærð uppvaxandi árganga ívið minni en fyrri mælingar sýndu.

Aldursgreindar vísitölur benda til að stærð veiðistofns (þyngd fjögurra ára og eldri) sé nú um 10-15% minni en áður hefur verið áætlað. Hinsvegar mælist vísitala 7-10 ára fisks (árgangar 1997-2000) nú um 20% hærri en árið 2006 og tvisvar sinnum hærri en hún var á árunum 2001-2003 sem er í samræmi við fyrra mat á hlutdeild þessara árganga í stofni og aflabrögð á vertíð sunnanlands.

Meðalþyngd 6 og 7 ára fisks mælist nú um 10% lægri og 8 og 9 ára fisks 5-10% hærri en í stofnmælingunni 2006 en meðalþyngd annarra aldurshópa er svipuð. Meðalþyngd eftir aldri er nú um 30% lægri en hún mældist hæst árin 1994-1996. Holdafar þorsksins var heldur betra en árið 2006, en undir meðaltali áranna frá 1993 þegar vigtanir hófust. Meira var af loðnu í þorskmögum en undanfarin ár og loðna fannst í þorski allt í kringum landið, þó mest út af Vestfjörðum.

Stofnvísitala ýsu var há líkt og undanfarin fjögur ár en lækkaði þó um 12% frá fyrri mælingu. Mæliskekkja stofnvísitölunnar var hlutfallslega lítil eins og árin 2004-2006, sem skýrist af jafnri útbreiðslu ýsunnar. Lengdardreifing ýsunnar bendir til að árgangar 2004-2006 séu um eða undir meðallagi en árgangur 2003 mældist mjög stór líkt og í síðustu stofnmælingum. Ýsan veiddist á grunnslóð allt í kringum landið. Holdafar ýsunnar var fremur lélegt, einkum stóra árgangsins frá 2003.

Þrír togarar voru leigðir til verkefnisins: Páll Pálsson ÍS, Ljósafell SU og Bjartur NK og auk þess tóku rannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson þátt í verkefninu. Alls var togað á 550 rallstöðvum allt í kringum landið.

Vefur Hafrannsóknarstofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK