Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir að þegar litið sé til sögulegs samhengis og viðskiptahalla sé líklegt að gengi krónunnar muni lækka fyrr eða síðar. Þetta sagði hann við blaðamenn Bloomberg.com en viðtalið var tekið í tengslum við vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem lauk í Washington í gær.
„Við undirstrikum að í sögulegu samhengi og í ljósi viðskiptahallans eru stoðir krónunnar ekki eins sterkar og við vildum. Við teljum að hún muni, fyrr eða síðar, lækka lítið eitt. Ég get ekki verið nákvæmari. Það er erfitt að spá um það og væri ekki rétt af mér að gera það. Fyrr eða síðar veikist hún. Þar eð vextir eru eins háir og þeir eru verður það kannski heldur seinna en fyrr," sagði Davíð.