Síminn hefur gengið frá kaupum á öllum hlutabréfum í þjónustufyrirtækinu Sensa ehf. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Markmið með kaupunum er að styrkja enn frekar þjónustu og ráðgjöf Símans til fyrirtækja bæði innanlands og erlendis.
Samningaviðræður milli fyrirtækjanna hafa staðið yfir undanfarnar vikur. Fyrri eigendur Sensa og stofnendur fyrirtækisins munu allir starfa áfram hjá fyrirtækinu eftir eigendaskiptin. Ekki verður gerð breyting á rekstrarformi félagsins eftir kaupin.
Sensa ehf. er þjónustufyrirtæki með sérfræðiþekkingu á sviði IP samskiptalausna. Fyrirtækið var stofnað árið 2002 og starfa þar 17 manns. Velta Sensa á árinu 2006 var 997 milljónir.
Í kjölfar eigendaskiptanna mun Sævar Freyr Þráinsson framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Símans taka við stjórnarformennsku í Sensa. Aðrir í stjórn verða Sigríður Olgeirsdóttir framkvæmdastjóri hjá Símanum og Ólafur Jóhann Ólafsson hjá Sensa.