Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,6% milli mars og apríl samkvæmt útreikningum Hagstofu. Þetta er í samræmi við spár greiningadeilda bankanna sem gerðu ráð fyrir 0,4-0,6% hækkun. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,21% frá mars.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,3% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,2%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,7% sem jafngildir 2,7% verðbólgu á ári en 2,6% verðhjöðnun fyrir vísitöluna án húsnæðis.
Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 2,5% milli mars og apríl (vísitöluáhrif 0,45%) og var það nær eingöngu vegna hækkunar markaðsverðs. Verð á fötum og skóm hækkaði um 5,5% (0,24%) þar sem ekki gætir lengur áhrifa af útsölum. Þá lækkaði verð á mat- og drykkjarvörum um 0,9% (-0,12%) og segir Hagstofan, að þar komi meðal annars fram áhrif af niðurfellingu vörugjalds af nokkrum flokkum matvæla.
Grunnur vísitölu neysluverðs er endurnýjaður í mars á hverju ári og byggist hann nú á þriggja ára meðaltali heimilisútgjalda samkvæmt útgjaldarannsókn Hagstofunnar árin 2003-2005. Árleg grunnskipti leiða til þess að ekki verða verulegar breytingar á skiptingu útgjalda frá einu ári til annars. Hagstofan segir að endurnýjun vísitölugrunnsins valdi ekki sem slík breytingum á vísitölunni milli mars og apríl.