Nafn netveitunnar Google er nú orðið verðmætasta vörumerki í heimi samkvæmt árlegum lista, sem ráðgjafarfyrirtækið Millward Brown tekur saman. Er vörumerki Google metið á 66,4 milljarða dala og er komið upp fyrir General Electric og Microsoft.
Fyrir nokkrum árum var Coca-Cola efst á þessum lista en Microsoft velti því úr sessi og Coca-Cola er nú dottið niður í 4. sæti.
Verðmæti vörumerkisins Google jókst á síðasta ári um 10,6%. Verðmætið er reiknað út frá veltu og afkomu fyrirtækja og viðhorfs almennings til viðkomandi vörumerkja.