Hagnaður af rekstri Nýherja nam 105 milljónum króna eftir skatta og afskriftir á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við 54 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Tekjur námu 2389,5 milljónum og jukust um 25% frá sama ársfjórðungi árið áður. Rekstrarhagnaður af starfsemi Nýherja var 122,1 milljón króna.
Vörusala og tengd þjónusta jókst um 354,2 milljónir milli ára eða 28%. Námu tekjur af þessum þætti 1625,2 milljónum í ársfjórðungnum.
Í tilkynningu Nýherja segir, að tekjur í fyrsta ársfjórðungi hafi verið nokkuð umfram áætlanir og afkoma í samræmi við áætlun. Söluhorfur í öðrum ársfjórðungi séu góðar og því sé gert ráð fyrir að áætlanir félagsins gangi eftir.