„Lending hagkerfisins verður svo mjúk að hægt verður að kalla hana snertilendingu áður en það fer á flug aftur," sagði Þorsteinn Þorgeirsson skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu er hann kynnti nýja þjóðhagsspá Fjármálaráðuneytisins í morgun.
Þorsteinn sagði að viðskiptahallinn muni dragast hratt saman í ár og verði 15,8% af landsframleiðslu vegna aukins útflutnings á áli og samdráttar í innflutningi sem einnig er spáð, sem og smávægilegum samdrætti í einkaneyslu.
Helstu óvissuþættirnir í þessari spá að mati Þorsteins eru fyrst og fremst hvort lagt verði í frekari stóriðjuframkvæmdir og nefndi hann áætlanir um álver á Húsavík og Helguvík. Ástandið á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, gengi krónunnar og endurnýjun kjarasamninga á næsta ári eru sömuleiðis óvissuþættir sem gætu breytt forsendum þessarar spár.