Segir óþægilega mikinn mun á sýn fjármálaráðuneytis og Seðlabanka

Greiningardeild Landbankans fjallar um nýja þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins, sem kom út í dag, og bendir á að þar birtist talsvert önnur og bjartari sýn á útlitið í efnahagsmálum en birtist nýlega hjá Seðlabankanum. Segir Landsbankinn raunar að mismunurinn sé óþægilega mikill og himinn og haf sé á milli spáa þessara stofnana um efnahagsframvinduna, hvort sem það stafi af pólitískri óskhyggju eða óeðlilegri svartsýni.

Landsbankinn segir að í grófum dráttum megi segja að fjármálaráðuneytið spái afar mjúklegri lendingu á næstu tveimur árum en Seðlabankinn spái töluvert harðri aðlögun á næsta og þar næsta ári. Þannig spáir ráðuneytið lítilsháttar samdrætti einkaneyslu á þessu og næsta ári og síðan vexti árið 2009 en Seðlabankinn sjái fyrir töluvert mikinn samdrátt 2008 og 2009.

„Ástæða þessa mikla munar er væntanlega ólík sýn á þróun kaupmáttar en ráðuneytið spáir rúmlega 2% aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann á ári en Seðlabankinn spáir tæplega 3% árlegri lækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna á sama tíma. Bæði fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn spá vaxandi atvinnuleysi á næstu árum en Seðlabankinn er mun svartsýnni og spáir því að árið 2009 verði atvinnuleysi komið í tæplega 5% en í spá fjármálaráðuneytisins er atvinnuleysið 3,4% á því ári.

Mun minni munur er á sýn þessara tveggja opinberu stofnana á þróun gengisvísitölunnar og stýrivaxta. Ráðuneytið reiknar með því að gengið veikist um 3% á næsta ári og haldist síðan óbreytt en Seðlabankinn reiknar ekki með veikingu gengisins fyrr en árið 2009. Varðandi stýrivexti reiknar ráðuneytið með því að stýrivextir lækki aðeins hraðar en Seðlabankinn hefur gefið til kynna, en að öðru leyti er vaxtaþróunin áþekk.

Bæði Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið reikna með því að afkoma hins opinbera muni versna hratt á næstu árum en ráðuneytið er þó bjartsýnna á þennan þátt, sérstaklega á árinu 2009 þegar hallinn verður kominn í 3,2% af landsframleiðslu. Seðlabankinn spáir 5,7% halla hjá hinu opinbera 2009. Til samanburðar var afgangur á hinu opinbera upp á 5,3% af landsframleiðslu á síðasta ári," segir í Vegvísi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK