Fimm nýir menn koma inn í aðalstjórn Glitnis banka á hluthafafundi, sem haldinn verður á mánudag. Framboðsfrestur til setu í stjórn bankans rann út í dag og samkvæmt framboðum munu aðeins Jón Sigurðsson og Skarphéðinn Berg Steinarsson sitja áfram í stjórninni. Miklar breytingar urðu á eignarhaldi Glitnis um páskana.
Samkvæmt tilkynningu Glitnis til Kauphallar Íslands gefa þau Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson, Jón Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir, Pétur Guðmundarson, Skarphéðinn Berg Steinarsson og Þorsteinn M. Jónsson kost á sér í stjórnina. Samkvæmt því hætta þeir Einar Sveinsson, Guðmundur Ólason, Hannes Smárason, Karl Wernersson og Þórarinn V. Þórarinsson í stjórninni.
Varamenn í stjórn verða Eiríkur S. Jóhannsson, Gunnar Karl Guðmundsson, Jón Björnsson, Kristinn Bjarnason, Kristinn Þór Geirsson, Paul Richmond Davidson og Smári S. Sigurðsson. Úr varastjórn ganga Guðmundur Ásgeirsson, Gunnar Jónsson, Hlíf Sturludóttir, Steingrímur Wernersson og Þorsteinn M. Jónsson, sem fer í aðalstjórn.