Gengistryggð útlán til heimila jukust um ríflega 20 milljarða króna í síðasta mánuði, sem jafngildir 24% aukningu milli mánaða. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis og segir þar, að lítil breyting hafi orðið á gengi krónu í mánuðinum og megi því ætla að hér sé meira og minna um hreina aukningu útlána að ræða.
Greining Glitnis segir, að nokkuð hafi verið um það síðustu mánuði, að heimili færi húsnæðislán sín úr verðtryggðum lánum í gengistryggð lán, og séu slík lán nú ríflega 14% af heildarskuldum heimila við bankakerfið. Til samanburðar var þetta hlutfall rúmlega 6% fyrir ári.
Hlutfallið séþó mun lægra ef miðað er við allar skuldir heimilanna, enda láni stórir lánadrottnar á borð við Íbúðalánasjóð, Lánasjóð íslenskra námsmanna og lífeyrissjóðina eingöngu í íslenskum krónum. Haldi heimilin hins vegar áfram að sækja í gengistryggð lán í jafnmiklum mæli og undanfarna mánuði gæti þetta hlutfall hækkað hratt, og næmni heimila fyrir gengishreyfingum aukist að sama skapi.