Nýverið var undirritaður lánasamningur milli útgerðarfélagsins Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum og Glitnis um endurfjármögnun skuldbindinga Bergs-Hugins er varða framtíðarrekstur félagsins.
Með samningnum er m.a. smíði tveggja togskipa fyrir félagið fjármögnuð. Annars vegar er um að ræða hina nýju Vestmannaey VE-444, sem bættist við flota Vestmannaeyja í mars síðastliðnum, og hinsvegar Bergey VE-544, sem kemur til landsins í september. Fyrir á félagið Smáey VE-144.
Þá snýr samningurinn einnig að fjárfestingu Bergs-Hugins í auknum aflaheimildum. Sú aukning er í takt við stefnu félagsins að styðja við tilurð aflaheimilda í heimabyggð þess og auka þannig við atvinnumöguleika í því rótgróna sjávarplássi sem Vestmannaeyjar eru, segir í tilkynningu frá Glitni.