Hagnaður bandaríska hugbúnaðarframleiðandans Microsoft Corp. á síðasta ársfjórðungi jókst um 65% miðað við sama tímabil á fyrra ári. Ástæðurnar eru einkum nýjar útgáfur af stýrikerfinu Windows og hugbúnaðarpakkanum Office, sem komu á markað í lok síðasta árs.
Hagnaður Microsoft nam 4,93 milljörðum dala eða 50 sentum á hlut en var 2,98 milljarðar eða 29 sent á hlut á sama tímabili á síðasta ári. Þetta var betri afkoma en sérfræðingar höfðu reiknað með.
Tekjur námu 14,4 milljörðum dala og jukust um 32% á milli ára.
Gengi bréfa Microsoft hækkaði um 3,6% í kvöld eftir að árshlutauppgjörið birtist.