Tap á rekstri Össurar eftir skatta nam 2,7 milljónum dala, jafnvirði 184 milljóna króna, á fyrsta fjórðungi ársins saman samanborið við 571 þúsund Bandaríkjadala hagnað á fyrsta fjórðungi 2006. Sölutekjur námu 80,4 milljónum dala, jafnvirði 5,5 milljarða króna, og jukust um 34% frá fyrsta fjórðungi 2006.
Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta var 10,2 milljónir dala, 698 milljónir íslenskra króna, og jókst um 19% frá fyrsta fjórðungi 2006. Svonefndt EBITDA hlutfall var 12,7% og lækkaði úr 14,3% fyrir sama tímabil í fyrra.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í tilkynningu að umfangsmikil endurskipulagning hafi hafist á sölukerfi fyrirtækisins í Ameríku í febrúar. Þetta komi niður á söluvexti og rekstrarniðurstöðum til skemmri tíma litið, en sé litið til lengri tíma muni breytingarnar hafa verulega jákvæð áhrif. Í Evrópu séu niðurstöður sérlega ánægjulegar í Bretlandi og í Þýskalandi.