Baugsmálið hefur haft neikvæð áhrif á ímynd íslensks viðskiptalífs, og þá einkum út á við, að mati Höllu Tómasdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands. Í könnun sem kynnt var í dag kemur fram, að íslenskir áhrifavaldar treysta stjórnvöldum betur en viðskiptalífinu.
Halla kvaðst ekki telja að Baugsmálið eitt og sér hefði haft áhrif á viðhorf þátttakenda í könnuninni til íslensks viðskiptalífs. Sagði hún líklegra að viðskiptalífið hefði ekki enn fengið nægan tíma til að ávinna sér traust, en vöxtur viðskiptalífsins á Íslandi hefði verið gífurlegur á mjög skömmum tíma.
Aftur á móti hafi hér lengi verið sama ríkisstjórn við völd, og hafi því fengið góðan tíma til að ávinna sér traust og tiltrú.