Eftir Bjarna Ólafsson og Björn Jóhann BjörnssonNovator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, gekk í gærkvöldi frá sölu á eignarhlut sínum í búlgarska símafélaginu BTC. Heildarverðmæti BTC er 160 milljarðar króna og mun þetta vera stærsta skuldsetta yfirtaka í Mið- og A-Evrópu til þessa. Hreinn söluhagnaður Novators af viðskiptunum er hátt í 60 milljarðar króna en annarra íslenskra fjárfesta um sex milljarðar. Mun þetta vera mesti innleysti söluhagnaður Íslandssögunnar af einni fjárfestingu. Ávöxtun íslensku fjárfestanna sem tóku þátt í fyrstu kaupum er nærri fimmföld.
Kaupandinn er bandaríska fjármálafyrirtækið AIG Global Investment Group. Það hefur tryggt sér kaup á rúmlega 90% í BTC en stefnir að kaupum á öllu félaginu og afskráningu úr kauphöllinni í Sófíu í Búlgaríu.
Björgólfur Thor sagðist í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi vera afar sáttur við niðurstöðuna í heild. Um gríðarlega flókið og um erfitt verkefni hefði verið að ræða í Búlgaríu; að nútímavæða símafyrirtæki í ríkiseigu og koma því inn í 21. öldina. Tekist hefði að ná fram settum markmiðum á mjög skömmum tíma og Novator hefði talið réttan tímann núna til að selja. "Við tökum út góðan hagnað og höfum gott orðspor í Búlgaríu, sem og á alþjóðamarkaði," sagði Björgólfur.
Í hnotskurn
» Novator fjárfesti fyrst í BTC í samvinnu við Advent International og fleiri þegar BTC var einkavætt árið 2004. Straumur-Burðarás og Síminn tóku einnig þátt.
» Novator jók við hlut sinn árin 2005–2006 og fer félagið með um 85% í BTC við þessa sölu. Auk þess leiddi Landsbankinn ásamt City Bank fjármögnun viðskipta með bréf í BTC árið 2006.