Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus tilkynnti í dag, að flugfélagið United Arab Emirates í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafi pantað 4 flugvélar til viðbótar af gerðinni A380 og að auki hafi verið staðfest pöntun á 43 vélum öðrum. A380 er stærsta farþegaflugvél heims.
Nýja pöntunin hljóðar upp á 1,22 milljarða dala. Talið er að flugfélagið fái fyrstu flugvélina í upphafi næsta árs.
Til stóð að hefja afhendingu á A380 flugvélum á síðasta ári en vegna tafa við framleiðsluna hefur afhendingartíminn lengst. Það hefur valdið Airbus miklum erfiðleikum vegna aukins kostnaðar og einnig hafa flugfélög afturkallað pantanir.