Bandaríski hugbúnaðarframleiðandinn Microsoft Inc. tilkynnti í dag, að hann hefði yfirtekið fyrirtækið aQantive, sem sérhæfir sig í auglýsingum og markaðsmálum á netinu. Kaupverðið er 6 milljarðar dala, jafnvirði 380 milljarða króna.
Microsoft segir í tilkynningu, að fyrirtækið vonist til að þessi viðskipti muni gera því kleift að auka umsvif sín í netauglýsingum en keppinautar Microsoft, svo sem Google, hafa þegar gríðarlegar tekjur af slíkum auglýsingum.
2600 manns starfa hjá aQuantive. Microsoft segist áforma að sameina starfsemi þess og þeirrar netþjónustu sem fyrir er.