Stjórn kanadíska álfélagsins Alcan hafnaði í kvöld einróma 33 milljarða dala fjandsamlegu yfirtökutilboði bandaríska álfélagsins Alcoa sem lagt var fram nýlega. Leggur stjórnin í yfirlýsingu til við hluthafa Alcan, að þeir hafni tilboði Alcoa. Alcan er móðurfélag Alcan á Íslandi, sem rekur álverið í Straumsvík og Alcoa á álver í Reyðarfirði sem nýlega tók til starfa.
Yves Fortier, stjórnarformaður Alcan, sagði að tilboð Alcoa endurspeglaði ekki virði Alcan, í því fælist ekki nægileg greiðsla fyrir að ráða Alcan og það væri háð óvissu og skilyrðum.
Alain Belda, forstjóri Alcoa, sagði eftir að tilboðið var kynnt, að samruni Alcoa og Alcan yrði afar hagfelldur fyrir hluthafa og samlegðaráhrifin yrðu mikil. Fortier sagði hins vegar að slíkur samruni væri ekki heppilegur vegna þess að fyrirtækin hefðu afar ólíka stefnu.