William Fall, fyrrum forstjóri Alþjóðasviðs Bank of America, tekur við starfi forstjóra Straums-Burðaráss fjárfestingabanka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum og jafnframt, að Friðrik Jóhannsson, sem hefur verið forstjóri bankans frá því í júní 2006, muni starfa náið með Fall á næstu mánuðum til að tryggja að forstjóraskiptin gangi greiðlega.
Í tilkynningu Straums-Burðaráss segir, að William Fall hafi verið forstjóri Alþjóðasviðs Bank of America frá árinu 2001, þar sem hann hafði yfirumsjón með og bar ábyrgð á allri starfsemi bankans utan Bandaríkjanna. Þá mótaði hann og byggði upp ólík svið bankans, allt frá viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi til fyrirtækja- og millibankastarfsemi, í 18 löndum. Þessi starfsemi jafi gefið af sér verulegar rekstrartekjur og yfir 20% arðsemi eigin fjár fyrir bankann, sem er annar stærsti banki heims.
Í tilkynningunni segir William Fall, að hann sé mjög ánægður með að ganga til liðs við Straum-Burðarás, sem hafi gríðarleg sóknarfæri og fjárfestingabankar á Norðurlöndum geti byggt framtíðarvöxt sinn á jafn sterkum efnahagsreikningi.