Í dag var undirritaður í Dusseldorf samningur milli Icelandair Hotels, dótturfyrirtækis Icelandair Group, og Hilton Hotels Corporation þess efnis að Nordica hótelið í Reykjavík verði hluti af Hilton hótelkeðjunni og heiti framvegis „Hilton Reykjavik Nordica".
Á næstu vikum verður merkingum og ýmsu varðandi starfsemi hótelsins breytt í samræmi við staðla Hilton fyrirtækisins.
Um er að ræða sérleyfissamning sem felur í sér að rekstur hótelsins verður áfram á vegum Icelandair Hotels en Hilton leggur til ímynd keðjunnar og margvísleg markaðs- og kynningartækifæri á alþjóðavísu.
Nordica hótelið var enduropnað fyrir fjórum árum eftir miklar breytingar. Það er fjögurra stjörnu og hefur 252 herbergi, veitingastað, líkamsræktaraðstöðuna Nordica Spa og ráðstefnuaðstöðu með 11 fundarsölum og er sá stærsti fyrir 650 manns.
Í tilkynningu er haft eftir Magneu Þóreyu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandair Hotels að samningurinn Hilton staðfesti gæði Nordica hótelsins.og að með samningnum opnist margskonar tækifæri sem byggja á þeirri staðreynd að Hilton sé þekktasta og virtasta nafnið í heiminum í þessari atvinnugrein og búi yfir öflugu markaðs- og sölukerfi, sérstaklega í funda- og ráðstefnuhaldi og gagnvart viðskiptaferðamönnum.