Nýtt fjárfestingarfélag, Sigla ehf., mun kaupa allt hlutafé í fasteignafélaginu Klasa hf. Eigendur Siglu, hver með sinn þriðjungshlut, verða Finnur Stefánsson, fráfarandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Glitnis, Tómas Kristjánsson, fráfarandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Glitnis og Þorgils Óttar Mathiesen, sem á fasteignafélagið Klasa fyrir viðskiptin.
Fasteignafélagið Klasi, sem er stofnað árið 2004, á og rekur atvinnuhúsnæði til útleigu, en sinnir jafnframt fasteignaþróun, þar á meðal uppbyggingu á nýjum miðbæ í Garðabæ, þjónustuíbúðum fyrir aldraða í Reykjanesbæ og hóteli í Ørestad í Kaupmannahöfn. Heildareignir Klasa námu tæpum 8 milljörðum króna í árslok 2006.
Ingvi Jónasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Klasa en hann hefur undanfarin ár verið fjármálastjóri Eignarhaldsfélagsins Fasteignar. Þorgils Óttar er stjórnarformaður Klasa en auk hans verða í stjórn Klasa þeir Finnur og Tómas auk Ásgeirs Bolla Kristinssonar.
Klasi verður aðaleign Siglu en Sigla mun jafnframt fjárfesta í skráðum og óskráðum hlutabréfum. Stjórn Siglu munu skipa Tómas Kristjánsson, formaður, Finnur Stefánsson, sem verður framkvæmdastjóri og Þorgils Óttar Mathiesen.