Verð á olíu lækkaði um 2 dali tunnan á heimsmarkaði í dag eftir að nýjar tölur birtust, sem sýndu að eldsneytisbirgðastaðan í Bandaríkjunum var betri en áður var talið og verkfalli nígerískra olíuverkamanna var aflýst. Í kjölfar verðlækkunarinnar lækkaði gengi hlutabréfa í kauphöllinni á Wall Street en hækkaði síðan aftur eftir að góðar fréttir bárust af viðskiptum á bandarískum fasteignamarkaði.
Verð á hráolíu lækkaði um 2,05 dali á markaði í New York og var 63,15 dalir undir kvöld. Í Lundúnum lækkaði einnig verð á Brent Norðursjávarolíu um 2,40 dali og var 67,6 dalir.
Dow Jones hlutabréfavísitalan hækkaði um 0,11% og var 13.521 stig. Nasdaq vísitalan hækkaði um 0,58% og var 2572 stig. Gengi bréfa deCODE hækkaði um 0,3% og er 3,35 dalir.