Nauðsynlegt er að beita meira aðhaldi í ríkisfjármálum. Þótt litlar ríkisskuldir endurspegli trausta stjórn ríkisfjármála og styðji við hagstæðar framtíðarhorfur þá leiddu skattalækkanir í upphafi ársins 2007 til ótímabærrar slökunar í ríkisfjármálum. Jafnframt er þörf á að endurskoða starfsemi Íbúðalánasjóðs og þegar horft er til framtíðar ættu bankar og eftirlitsstofnanir að beina sjónum sínum einkum að útlánaáhættu. Þetta kemur fram í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við lok reglulegra viðræðna við fulltrúa íslenskra stjórnvalda og atvinnulífs í dag.
Efnahagshorfur á Íslandi enn öfundsverðar
Í niðurstöðum sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að til lengri tíma litið eru efnahagshorfur á Íslandi enn öfundsverðar. Opnir og sveigjanlegir markaðir, traust stofnanakerfi og fagleg stjórn á náttúruauðlindum hafa gert Íslandi kleift að njóta tækifæra sem fylgt hafa alþjóðavæðingunni. Opnari alþjóðlegir markaðir gefa ekki aðeins fleiri tækifæri heldur leysa einnig úr læðingi öfl sem geta grafið undan þjóðhagslegum stöðugleika og leiðin framundan er vörðuð ýmsum þrautum sem stjórnvöld þurfa að takast á við til að tryggja góða vegferð.
Draga þarf úr innlendri eftirspurn
„Að hluta til sýna mikill viðskiptahalli, ör skuldasöfnun og viðvarandi verðbólga hvernig þessi öfl grafa undan stöðugleika. Þessar aðstæður endurspegla hraðari vöxt innlendrar eftirspurnar undanfarin ár en fær staðist til lengdar. Á næstunni þarf að beita viðeigandi aðhaldi til þess að draga úr innlendri eftirspurn. Að auki þarf að efla áhrifamátt ríkisfjármála og peningamála til þess að ná þjóðhagslegum stöðugleika. Slíkar aðgerðir munu auka getu hagkerfisins til þess að takast á við óstöðugleika sem rekja mætti til hnattvæðingarinnar en þær auðvelda því jafnframt að nýta þau góðu tækifæri sem bjóðast," að því er segir í niðurstöðum sendinefndarinnar.
Þar kemur fram að þvert á væntingar hefur ekki dregið nægilega úr innlendri eftirspurn. Búist er við að hagvöxtur verði 2-3% í ár en minnki síðan í 1% 2008. Áframhaldandi kröftug einkaneysla og stóraukinn útflutningur munu halda hagvexti uppi þótt gert sé ráð fyrir að fjárfesting einkaaðila dragist saman á árinu þegar álframkvæmdum lýkur.
Árið 2008 er búist við að vaxandi greiðslubyrði lána og hærra innflutningsverð dragi úr einkaneyslu. Spáð er að viðskiptahallinn minnki um helming næstu tvö árin þegar hagvöxtur færist meira yfir á útflutningsgreinar en vegna mikils þáttatekjuhalla verður hann samt enn meiri en stenst til lengdar. Verðbólguþrýstingur verður einnig mikill í ár þar sem spenna á vinnumarkaði og neytendamarkaði knýr áfram þá verðbólgu sem gengislækkunin á miðju ári 2006 olli. Hækkun húsnæðisverðs að undanförnu eykur enn á verðbólguþrýsting og verðbólga verður væntanlega yfir markmiði a.m.k. til ársloka 2008.
Mikilvæg er þó að hafa hugfast að horfur á betra jafnvægi í innlendri eftirspurn byggjast á þeirri forsendu að beitt verði aðhaldssamari efnahagsstefnu.
„Nauðsynlegt er að beita meira aðhaldi í ríkisfjármálum. Þótt litlar ríkisskuldir endurspegli trausta stjórn ríkisfjármála og styðji við hagstæðar framtíðarhorfur þá leiddu skattalækkanir í upphafi ársins 2007 til ótímabærrar slökunar í ríkisfjármálum. Þörf er á aðgerðum sem tryggja að innlendur eftirspurnarþrýstingur minnki nægilega án þess að of þungar byrðar verði lagðar á peningastefnuna. Ríkisstjórnin getur gripið til ýmissa ráða.
Í fyrsta lagi ætti að draga úr þeim hraða vexti opinberrar fjárfestingar sem áformaður er.
Í öðru lagi verður ríkisstjórnin að forðast að skapa nýja útgjaldaliði þar til eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu hverfur. Í þriðja lagi þarf að sýna sterka forystu í komandi kjaraviðræðum með því að halda aftur af hækkun launa hjá hinu opinbera þrátt fyrir skort á vinnuafli. Ennfremur ætti að íhuga þann möguleika að liðka fyrir innflutningi á sérhæfðu vinnuafli frá löndum utan Evrópusambandsins til að draga úr flöskuhálsum á vinnumarkaði sem magna hækkun launa umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiðinu," segir í niðurstöðu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Styrkja þarf fjárlagarammann
Til lengri tíma litið þarf að styrkja fjárlagarammann svo framlag hans til efnahagsstöðugleika eflist eins og ný ríkisstjórn hefur lýst yfir. Finna þarf leiðir til að tryggja að útgjaldamarkmið hins opinbera náist á hverju ári. Afdráttarlaust samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga myndi hjálpa til í þessu efni. Loks gætu ríkisfjármálin unnið kerfisbundið gegn sveiflum og styrkt sameiginlega ábyrgð Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar á verðbólgumarkmiðinu ef tekinn yrði upp fjárlagarammi með útgjaldamarkmiði sem byggðist á því verðbólgumarkmiði sem Seðlabankanum ber að ná, segir í þýðingu á niðurstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Vísbendingar um að verðbólga verði þrálátari en vænst var
„Þar sem verðbólga er vel yfir markmiði og vísbendingar eru um að hún verði þrálátari en vænst var í síðustu útgáfu Peningamála, þarf að herða aðhald í peningamálum til þess að kveða niður eftirspurnarþrýsting og halda verðbólguvæntingum í skefjum.
Þrátt fyrir lækkun mældrar verðbólgu vegna lækkunar virðisaukaskatts og vörugjalda hafa mælingar á undirliggjandi verðbólgu verið vel utan þolmarka Seðlabankans og áframhaldandi spenna á neytenda- og vinnumarkaði bendir til að verðbólguþrýstingur verði áfram mikill. Auk þess mun gengi krónunnar fyrr eða síðar lækka á sjálfbærara stig og þannig stuðla að betra ytra jafnvægi. Þegar þetta gerist verður peningastefnan að sjá til þess að verðlag hækki ekki síðar meir vegna óbeinna áhrifa."
Endurskoðun á Íbúðalánasjóði brýnt verkefni
Endurskoðun á Íbúðalánasjóði, sem er í opinberri eign, er sérstaklega brýn til þess að auka skilvirkni peningastefnunnar og til þess að draga úr hættu sem innlendum stöðugleika getur stafað af sveiflukenndu fjármagnsflæði. Samkeppni á milli Íbúðalánasjóðs og innlendra banka hindrar stýrivexti Seðlabankans í að draga úr innlendum eftirspurnarþrýstingi með skilvirkum hætti og veldur því að skammtímavextir eru mun hærri en ella. Þetta getur haft varanlega skaðleg áhrif á þær atvinnugreinar sem ekki eiga kost á að verja sig gegn háum vöxtum og þannig skert hagvaxtargetu hagkerfisins til lengri tíma. Fyrsta skref í umbótum vegna Íbúðalánasjóðs ætti að vera að lækka án tafar hámarkslán og lánshlutföll hans. Í framhaldinu þarf ríkisstjórnin að eyða fyrir fullt og allt þeirri bjögun á innlendum fjármálamarkaði sem stafar af tilvist Íbúðalánasjóðs í eigu hins opinbera. Um leið má taka upp sértækar aðgerðir sem tryggja aðgang að fasteignafjármögnun í öllum landshlutum.
„Fjármálakerfið stóðst með prýði erfiðleika á markaði á fyrri hluta árs 2006 en nýjar áhættur gætu verið að myndast. Undanfarið ár hafa bankarnir tekið mikilvæg skref í að laga veikleika og auka viðnámsþrótt. Skammtímalausafjárstýring hefur verið efld. Eignarhald er gagnsærra eftir að losað var um krosseignarhald, sem er mikilvægt skref til þess að viðhalda trausti fjárfesta. Bankarnir þurfa að þróa og efla aðferðir við áhættustýringu í samræmi við áframhaldandi vöxt og margbrotnari starfsemi," að því er segir í niðurstöðu sendinefndarinnar.
Þegar horft er til framtíðar ættu bankar og eftirlitsstofnanir að beina sjónum sínum einkum að útlánaáhættu. Útlán vaxa enn mjög hratt og þótt hlutfall vanskila sé enn lágt getur hraður útlánavöxtur verið vísbending um framtíðarútlánatap. Fylgjast þarf vel með lánareglum og gæðum trygginga. Auk þess gæti bönkum stafað óbein hætta af ört vaxandi erlendum lánum sínum til heimila, þar sem heimili sem ekki eru varin gegn gengisbreytingum gætu vanmetið áhrif þeirra á greiðslubyrði sína. Umbætur vegna Íbúðalánasjóðs myndi einnig bæta verðlagningu á áhættu á lánamarkaði.
Frekari efling Fjármálaeftirlitsins fagnaðarefni
Álagspróf sem gerð eru af Fjármálaeftirlitinu gefa til kynna að bankar hafi nægilega styrka eiginfjárstöðu til þess að standast samspil óvenjumikilla lána- og markaðsskella. Slík próf geta þó vanmetið óbein áhrif slíkra áfalla. Því ber að halda á áfram að endurbæta álagspróf.
Frekari efling Fjármálaeftirlitsins er fagnaðarefni í ljósi mikils vaxtar fjármálageirans. Jafnframt ber að fagna áherslu stjórnvalda á samstarf við stjórnvöld í öðrum löndum um eftirlit og viðbúnað.
Myndun nýrrar ríkisstjórnar veitir upplagt tækifæri til þess að taka þær erfiðu ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til þess að styrkja efnahagsstöðugleika á Íslandi. Því fyrr sem þessar ákvarðanir eru teknar, því fyrr verður jafnvægi endurheimt í íslenska hagkerfinu, að því er segir í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.