Hillary Clinton lýsti því yfir nú um helgina að hún væri andvíg staðfestingu á fríverslunarsamningi milli Bandaríkjanna og Suður-Kóreu. Hún sagði að samningurinn, sem taka á gildi 30. júní, muni meðal annars skaða bandarískan bílaiðnað.
Á fundi með félögum í AFL-CIO verkalýðsfélaginu í heimaborg bandaríska bílaiðnaðarins, Detroit, sagði Clinton að á sama tíma og hún mæti mikils hið sterka samband á milli landanna tveggja, fyndist henni fríverslunarsamningurinn afar óréttlátur. „Samningurinn mun skaða bandarískan bílaiðnað, auka óhagstæðan viðskiptajöfnuð, auka atvinnuleysi millistéttarfólks og gera Bandaríkin minna samkeppnishæf," sagði Clinton.
Fríverslunarsamningur Bandaríkjanna og Suður-Kóreu á að draga úr hömlum á inn og útflutningi á landbúnaðarvörum, fjármálaþjónustu, símasamskiptum og nánast öllu þar á milli. Samningurinn verður sá stærsti sem Bandaríkjamenn hafa gert frá árinu 1992 þegar Norður-Ameríski fríverslunarsamningurinn var undirritaður.
Sjö hundruð þúsund suður-kóreskir bílar á móti 6000 bandarískum bílum
Öldungadeildarþingmenn ríkja sem hafa mikla hagsmuna að gæta í bílaiðnaði, hafa mótmælt samningnum með þeim rökum að hann gefi Suður-Kóreumönnum óheftan aðgang að bílamarkaðnum í Bandaríkjunum án þess að takmarkanir að bílamarkaði í Suður-Kóreu minnki. Hillary Clinton tók í sama streng í gær og sagði að ef höftum verður ekki aflétt, muni bandarískir bílaframleiðendur standa frammi fyrir aukinni samkeppni heima fyrir og takmörkuðum aðgangi að mörkuðum í Suður-Kóreu.
Suður-Kórea flutti 700.000 bifreiðar til Bandaríkjanna í fyrra á sama tíma og bandarískir bílaframleiðendur seldu aðeins 6.000 stykki í Suður-Kóreu.
Skoðanakannanir sýna að Hillary Clinton er í forystu meðal þeirra sem bjóða sig sem forsetaefni demókrata.