Century Aluminum skráð á First North Iceland

Nýtt hlutafé í Century Aluminum Company, sem rekur Norðurál á Grundartanga verður skráð á First North Iceland 14. júní nk. Félagið er skráð á Nasdaq hlutabréfamarkaðinn og verður því fyrsta félagið á bandarískum markaði til að fara í tvíhliða skráningu hér á landi.

Hinn 7. júní sl. fór Century Aluminum í útboð meðal íslenskra og bandarískra fjárfesta og er áætlað verðmæti seldra hluta rúmir 24 milljarðar króna.

Af hinum nýju hlutum verða 1.650.000 heimildarskírteini fyrir hluti (e. Global Depisotory Receipts) tekin til viðskipta á First North Iceland. Samanlagt voru 7.250.000 hlutir boðnir út til almennings á 52,50 dollara á hlut, að því er segir í tilkynningu. Félagið er þegar skráð á Nasdaq og verður því fyrsta félagið á bandarískum markaði til að fara í tvíhliða skráningu hér á landi. Markaðsvirði félagsins fyrir útboðið var um 115 milljarðar króna (USD 1,8 ma). Century hefur veitt sölutryggjendum 30 daga forkaupsrétt á allt að 1.087.500 hlutum til viðbótar af almennum hlutabréfum félagsins til að tryggja umframúthlutun, ef einhver er (þar af 247.500 hlutum sem yrðu seldir fjárfestum á Íslandi í formi heimildarskírteina). Gert er ráð fyrir að útboðinu ljúki á tilskilinn hátt þann 13. júní 2007.

„Century hefur í hyggju að efla starfsemi sína á Íslandi m.a. með byggingu nýs álvers. Útboð á Íslandi og viðskipti á First North eru liður í þeirri uppbyggingu," að því er segir í tilkynningu.

„Við tökum því fagnandi að fá Century Aluminum Company til viðskipta á First North. Þetta er fyrsta bandaríska félagið sem skráð er í Kauphöllina á Íslandi og fjórða Nasdaq-félagið sem fer í tvíhliða skráningu á OMX Nordic Exchange. Ennfremur er Century Aluminum fyrsta álfélagið í OMX og því eykst fjölbreytni á markaðnum við komu þess. Félagið tilheyrir vaxandi atvinnugrein á Íslandi og eykur breiddina í fjárfestingarkostum bæði fyrir innlenda og erlenda fjárfesta á markaðnum,” segir Þórður Friðjónsson, forstjóri OMX Nordic Exchange á Íslandi, í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK