Vísitala neysluverðs í júní 2007 hækkaði um 0,52% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,20% frá maí. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,0% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 1,7%. Fastskattavísitala neysluverðs hefur hækkað um 5,8% síðastliðna 12 mánuði. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,0% sem jafngildir 8,2% verðbólgu á ári (5,0% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Í frétt frá Hagstofu Íslands kemur fram að kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 1,9% (vísitöluáhrif 0,34%), aðallega vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis og verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 3,2% (0,14%).
Vísitala neysluverðs í júní 2007, sem er 272,4 stig, gildir til verðtryggingar í júlí 2007. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 5.379 stig fyrir júlí 2007.
Í Hálf fimm fréttum Kaupþings í gær kom fram að Greiningardeild Kaupþings spáði því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,6%. Ef spáin hefði gengið eftir myndi tólf mánaða verðbólga mælast 4,1% samanborið við 4,7% verðbólgu í maí. Meðalspá greiningaraðila samkvæmt könnun frá fréttaveitunni Bloomberg hljómar upp á 0,7% hækkun milli mánaða.
Greining Glitnis spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,8% á milli mánaða sem þýðir 4,3% hækkun neysluverðs undanfarna tólf mánuði.