Álframleiðandinn Alcan, sem m.a. á álverið í Straumsvík, hefur gert langtímasamning við evrópsku flugvélaverksmiðjurnar Airbus um sölu á hágæðaáli sem notað verður í allar flugvélar sem Airbus smíðar, þ.á m. nýju risaþotuna A380, að því er fram kemur í frétt Reuters.
Í Evrópu framleiðir Alcan álplötur fyrir flugvélaiðnað í verksmiðju í Issoire í Frakklandi. Þar starfa um 1.500 manns. Eftir undirritun samningsins við Airbus sagði Christel Bories, framkvæmdastjóri hjá Alcan, að þetta undirstrikaði hlutverk fyrirtækisins sem helsta álvörubirgis Airbus, og mikilvægi flugvélaiðnaðarins fyrir Alcan.