Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingar slitið - eigið fé 30 milljarðar

Samvinnutryggingar er forsvari VÍS
Samvinnutryggingar er forsvari VÍS

Á fulltrúaráðsfundi Eignarhaldsfélagsins Samvinnutryggingar í dag, var ákveðin formbreyting á félaginu. Breytingin felur í sér að nýtt hlutafélag tekur við öllum eignum og skuldum félagsins. Jafnframt var á fundinum ákveðið að slíta Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingar með formlegum hætti. Eigið fé Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga losar nú 30 milljarða króna.

Í fréttatilkynningu kemur fram að hlutafé hins nýja félags verður m.a. skipt á milli fyrrum tryggingataka Samvinnutrygginga g.t. sem skipt hafa áfram við Vátryggingafélag Íslands hf. fram til 1. júní 2006 og áttu skilyrtan eignarrétt í Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingar. Hluthafar verða á fimmta tug þúsunda og eigið fé félagsins losar rúma 30 milljarða króna. Eignarhlutirnir í hinu nýja félagi verða ekki afhentir fyrrum tryggingatökum fyrr en í fyrsta lagi í október nk.

Jafnframt var á fundinum ákveðið að slíta Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingar með formlegum hætti. Kosin var 3ja manna skilanefnd sem sjá mun um hið fjárhagslega uppgjör sem skiptunum fylgir. Eignir og skuldir Eignarhaldsfélagsins Samvinnutryggingar hafa verið færðar til dótturfélagsins Gift fjárfestingarfélags ehf. og það eru hlutir þess sem koma til skipta milli eigenda, en eignarréttur þeirra hefur verið skilyrtur hingað til.

Eigið fé Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga losar nú 30 milljarða króna, en það endurspeglast nú í efnahag dótturfélagins Gift fjárfestingarfélags ehf. Stærstu eignir félagsins eru hlutafé í Exista hf., íslenskum fjármálastofnunum og óbeinn eignarhlutur að tæpum þriðjungshlut í Icelandair Group hf. í gegnum Langflug ehf.

Stærsti einstaki eigandinn veðrur Samvinnusjóðurinn

„Eins og kunnugt er, þá var Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar áður gagnkvæmt tryggingafélag. Eigendur þess eru að stórum hluta til fyrrverandi tryggingatakar, síðustu tvö heilu rekstrarár Samvinnutrygginga g.t., sem haldið hafa viðskiptatryggð við Vátryggingafélag Íslands hf. eftir það. Stærsti einstaki eigandinn verður Samvinnusjóðurinn sjálfseignarstofnun, áður Samvinnutryggingasjóðurinn, en til sjóðsins hafa á umliðnum árum fallið skilyrt eignarréttindi þeirra fyrrverandi tryggingartaka sem látist hafa, orðið gjaldþrota, hætt starfsemi ef lögaðilar eiga í hlut eða hætt viðskiptum við Vátryggingafélag Íslands hf. Verkefni skilanefndarinnar er að skipta hlutunum í Gift fjárfestingarfélagi ehf. á milli þessara aðila sem áður áttu skilyrtan eignarétt í félaginu.

Við skiptalok Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, sem lýkur í fyrsta lagi næsta haust, þá munu á fimmta tug þúsunda fyrrum viðskiptamanna Samvinnutrygginga g.t. verða orðnir hluthafar í Gift fjárfestingarfélagi ehf., sem verður þá jafnframt eitt öflugasta og fjölmennasta fjárfestingarfélag landsins. Eigendum verður tilkynnt um niðurstöðu skilanefndar strax og hún liggur fyrir.

Á fundinum var staðfest skipulagsskrá fyrir Samvinnusjóðinn sjálfseignarstofnun, sem verður stærsti einstaki hluthafi Gift fjárfestingarfélags ehf., sem hefur það að markmiði að ráðstafa arði af eignarhlutnum til samfélagsverkefna og almenningsheilla," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka