Cadbury Schweppes, heimsins stærsti framleiðandi sætinda, hefur tilkynnt um að fyrirtækið hyggist segja upp 7.500 starfsmönnum og loka 10 verksmiðjum. Fimmtíu þúsund manns vinna hjá breska fyrirtækinu sem rekur 70 verksmiðjur. Hlutabréf í Cadbury lækkuðu um 1,1% við tíðindin.
Cadbury framleiðir meðal annars Dairy Milk súkkulaði og Trident tyggjó og sagði framkvæmdastjóri Cadbury, Todd Stitzer, við fréttastofuna Reuters í dag að líkur hefðu aukist á að drykkjarvöruhluti fyrirtækisins yrði seldur.
Stitzer viðurkenndi að sætindabransinn væri erfiður viðureignar nú um mundir og meiri niðurskurður væri yfirvofandi. Hann gaf engar útlistanir á því hvar sá niðurskurður yrði en játaði að fyrirtækið gæti gert mun betur í Bretlandi,Rússlandi og í Kína.
Sérfræðingar segja að Cadbury verði að sannfæra fjárfesta um að það geti aukið hagnað sinn og geti keppt við bandarísku sælgætisframleiðendurna Wm. Wrigley Jr., Hershey og Kraft Foods.