Sænska þingið samþykkti í dag að selja hlut ríkisins í sex stórfyrirtækjum, þar á meðal framleiðslufyrirtæki Absolut vodka.
Með samþykki þingsins getur ríkisstjórnin nú selt hlut sinn í þremur fyrirtækjum sem skráð eru á hlutabréfamarkað, fjarskiptafyrirtækinu TeleSonera AB, bankahópnum Nordea AB og verðbréfafyrirtækinu OMX AB. Þrjú óskráð fyrirtæki verða einnig seld. Það eru fasteignafyrirtækið Vasakronan AB, veðlánafyrirtækið SBAB og vínframleiðandinn Vin & Sprit AB, sem framleiðir Absolut.
Ríkisstjórnin segir nokkra stóra vínframleiðendur hafa lýst yfir áhuga á að kaupa sænsku vodkaframleiðsluna, þar á meðal Pernod Ricard SA, Bacardi Ltd., Diegeo PLC og Fortune Brands Inc. Hlutur ríkisins í fyrirtækjunum sex er metinn á 250 milljarða sænskra króna.