Straumur-Burðarás seldi fyrir helgi allan hlut sinn í sænska getrauna- og leikjafyrirtækinu Betsson, alls um 29% af heildarhlutafé fyrirtækisins. Við lokun kauphallarinnar í Stokkhólmi þann dag var gengi félagsins 49,7 sænskar krónur. Við lokun markaðar í gær var gengið 57,5 sænskar krónur. Hér er um að ræða 15,7% hækkun, sem hefði skilað bankanum um 691 milljónum króna. Þannig má segja að Straumur-Burðarás hafi orðið af þeirri upphæð.
Bankanum til málsvarnar má hins vegar benda á að þegar hlutirnir voru seldir hafði gengi félagsins hækkað um 128%. Þannig innleysti bankinn ágætis hagnað en hefði eins og áður segir getað aukið hann enn meira með smá þolinmæði. Frá þessu greinir sænski vefmiðillinn di.se.