Fjölmiðlafyrirtækið News Corp., sem er að stærstum hluta í eigu Ruperts Murdochs, hefur átt í viðræðum við vefrisann Yahoo! um að skipta á tónlistarvefsíðunni MySpace fyrir 30% hlut í sameinuðu fyrirtæki Yahoo! og MySpace. Frá þessu er greint í frétt í The Times of London sem er einmitt í eigu News Corp.
Segir í fréttinni að News Corp. hafi mikinn áhuga á að af samruna Yahoo! og MySpace verði, þó svo að fyrirtækið missi þar með yfirráðin yfir tónlistarvefsíðunni. Í staðinn náist hins vegar mun meiri útbreiðsla á Netinu. Viðræður séu hins vegar það skammt á veg komnar að ekkert sé hægt að segja um líkur á samkomulagi.