Greiningardeild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs lækki lítillega í júlí eða um 0,1%. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 3,4% í stað 4,0% nú.
Í nýrri spá Greiningardeildar Landsbankans kemur fram að verðbólgan fer því undir þolmörk verðbólgumarkmiðsins í fyrsta sinn í tæp 2 ár. Í mánuðinum togast á útsöluáhrif á fatnaði og skóm sem virka til lækkunar og hækkun húsnæðisverðs og eldsneytis.
Þrátt fyrir að Greiningardeild spái því að verðlag lækki í júlí er enn töluverð undirliggjandi verðbólga í hagkerfinu. Útsöluáhrifin vara í júlí og ágúst mánuði en ganga til baka í september og október. Þá fer verðlag hækkandi á ný.
Hagstofan birtir niðurstöður verðmælinga sinna þann 11. júlí.