Kaupþing hefur hefur gefið út svokölluð samúræjabréf, skuldabréf útgefin í japönskum jenum, fyrir 28 milljarða jena, 14,3 milljarða króna. Í gær var greint frá því að Kaupþing hafi gefið út víkjandi skuldabréf að fjárhæð 250 milljóna evra, rúmlega 21 milljarð króna. Bréfin bera 6,75% fasta vexti og eru ekki með lokagjalddaga en eru innkallanleg af hálfu Kaupþings að fimm árum liðnum.
Samkvæmt upplýsingum frá Bloomberg gaf Kaupþing nú út þrjú bréf; þriggja ára bréf að verðmæti 10 milljarðar jena með 1,65% vöxtum, 5 milljarða jena fimm ára bréf með 1,99% vöxtum og 13 milljarða jena fimm ára bréf með fljótandi vöxtum. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.
Árið 2006 voru alls gefin út samúræjabréf fyrir 741 milljarð jena en í ár er þegar búið að gefa út bréf að verðmæti 1.259 milljarða jena, samkvæmt Vegvísi Landsbankans.
„Vextir hafa almennt farið hækkandi í heiminum sem gerir það að verkum að fyrirtæki leita eftir lægri vöxtum í löndum á borð við Japan þar sem vextir eru lágir," samkvæmt Vegvísi Landsbankans.