Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lauk fyrir skömmu fundi þar sem samþykkt var að Reykjanesbær muni nýta sér forkaupsrétt á 15,2% hlut í Orkuveitu Suðurnesja. „Við urðum jafnframt ásátt um að þessi hlutur hefði runnið til þess sem bauð hæst í tilboði ríkisins sem var Geysir Green," sagði Árni Sigfússon bæjarstjóri í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
„Það voru allir sammála um að nýta forkaupsréttinn en minnihlutinn var ekki sammála því að þetta ætti að fara til þess sem bauð hæst," sagði Árni.
„Í okkar huga snýst þetta ekki um hver býður best, heldur hver er besti samstarfsaðilinn...það sem skiptir máli er að hitaveitan verði hér til frambúðar," sagði Árni er hann var inntur eftir því hvort afstaðan myndi breytast ef Orkuveita Reykjavíkur byði hærra verð.
„Orkuveitan þyrfti þá að gera skýrari grein fyrir sínum hugmyndum en hún hefur enga grein gert fyrir þeim við okkur, stærstu eigendurna," sagði Árni að lokum.
Bæjarfulltrúar A-listans, sem eru í minnihluta í bæjarstjórninni, sátu hjá við atkvæðagreiðslu tillögu meirihlutans en lögðu fram bókun þar sem því er lýst yfir, að þeir samþykki að Reykjanesbær beiti forkaupsréttinum. Nauðsynlegt sé að nýta tímann framundan til þess að skapa sátt milli hluthafa um eignahlutföll innan Hitaveitu Suðurnesja svo að ekki verði hægt í krafti sterkrar eignarstöðu, að ganga fram hjá hagsmunum minni eiganda. Þeir aðilar sem hafi lýst áhuga sínum á að eiga hlut í Hitaveitu Suðurnesja geti með aðkomu sinni styrkt stöðu hennar til framtíðar og því sé mikilvægt að næstu skref tryggi að svo megi verða.