Róbert Wessman, forstjóri Actavis, hefur tilkynnt Novator að hann samþykki sölu á öllum hlutum sem hann og tengd félög eiga í Actavis til Novator samkvæmt þeim tilboðsskilmálum sem fram koma í tilboði Novator. Alls er um að ræða 136.732.633 hluti að nafnverði.
Sindri Sindrason, stjórnarmaður í Actavis, hefur einnig tilkynnt Novator að hann samþykki sölu á öllum hlutum í eigu hans og tengdra félaga til Novator samkvæmt þeim tilboðsskilmálum sem fram koma í tilboði Novator. Alls er um að ræða 21.658.059 hluti að nafnverði.
Tilboðsverð Novator er 1,075 evrur á hlut og eru fyrirvarar samkvæmt tilboði Novator í gildi þannig að sala hlutabréfanna hefur ekki átt sér stað.
Róbert Wessman fær því 146.987.580 evrur, eða rúmlega 12,3 milljarða íslenskra króna, fyrir hlut sinn í Actavis. Sindri Sindrason fær 23.282.416 evrur fyrir sinn hlut sem jafngildir tæplega tveimur milljörðum króna.
Í Morgunblaðinu á laugardag var greint frá því að Novator er komið með vilyrði fyrir 50-60% hlut í Actavis og þar með hafa skapast forsendur til að skrá félagið af markaði.