Lesendum fríblaðsins Nyhedsavisen í Danmörku fjölgar jafnt og þétt. Samkvæmt nýjustu mælingu Gallup voru lesendur blaðsins að jafnaði 437 þúsund í júní og fjölgaði um 38 þúsund frá síðustu mælingu í maí. Um 522 þúsund manns lásu að jafnaði fríblaðið 24timer, sem borið er í hús eins og Nyhedsavisen.
Lesendum fríblaðanna MetroXpress og Urban hefur hins vegar fækkað umtalsvert. Um 525 þúsund manns lesa MetroXpress að jafnaði, 127 þúsund færri en í júní í fyrra. Þá lesa 466 þúsund manns Urban nú og hefur lesendum blaðsins fækkað um 153 þúsund á einu ári.
Lesendum áskriftarblaðanna B.T., Ekstra Bladet, Jyllands-Posten, Politiken, Kristeligt Dagblad og Børsen hefur einnig fækkað. Lesendum
Berlingske Tidende hefur hins vegar fjölgað um 30 þúsund frá því í júní á síðasta ári og eru nú 360 þúsund.