Ekki útlit fyrir lækkun stýrivaxta fyrr en á næsta ári

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri
Davíð Oddsson Seðlabankastjóri Ómar Óskarsson

Allt bendir til þess að ekki verði hægt að lækka stýrivexti fyrr en á fyrri helming næsta árs eigi viðunandi horfur að vera á að verðbólga verði við markmið á því ári og að það náist að fullu snemma árs 2009. Þetta kom fram í máli Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á blaðamannafundi í dag. Áður var talið að vaxtalækkunarferli Seðlabankans gæti hafist á fjórða ársfjórðungi 2007. Bankastjórn Seðlabanka Íslands kynnti í morgun að stýrivextir bankans skuli vera óbreyttir, þ.e. 13,3%.

Reiknað með 17% skerðingu á þorskkvóta í grunnspá

Meðal forsendna í grunnspá Seðlabankans er 17% niðurskurður á þorskkvóta. Ákvörðun um hann hefur ekki verið tekin en áhrif hennar og tengdra ráðstafana verða metin við síðari ákvarðanir bankastjórnar um vexti.

Í stefnuyfirlýsingu bankastjórnar Seðlabanka Íslands kemur fram að verðbólga hefur hjaðnað hægar en gert var ráð fyrir í spá bankans í mars sl. þótt gengi krónunnar hafi hækkað meira en reiknað var með. Verðbólga mælist nú 4% en áætluð undirliggjandi verðbólga um 6%.

„Verðbólguhorfur til næsta árs hafa versnað síðan í mars og útlit er fyrir að verðbólgumarkmiðið náist síðar jafnvel þótt stýrivöxtum verði haldið óbreyttum lengur en reiknað var með. Spáin nú bendir til að ekki verði unnt að lækka stýrivexti fyrr en á fyrri helmingi næsta árs eigi viðunandi horfur að vera á að verðbólga verði við markmið á því ári og að það náist að fullu snemma árs 2009. Um stýrivaxta-ferilinn í grunnspánni gildir sem fyrr að hann felur ekki í sér yfir-lýsingu eða fyrirheit bankastjórnar. Hann er hins vegar þýðingarmikil vísbending um hverjir stýrivextirnir þurfa að vera að öðru óbreyttu til þess að verðbólgumarkmiðið náist á spátímanum," samkvæmt stefnuyfirlýsingunni.

Háir raunstýrivextir og hátt gengi krónunnar

Sú ákvörðun bankastjórnar að halda stýrivöxtum óbreyttum þrátt fyrir verri verðbólguhorfur tekur mið af tvennu, að sögn Davíðs Oddssonar.

„Annars vegar eru raunstýrivextir orðnir háir og hafa haft vaxandi áhrif á ávöxtun bæði óverðtryggðra og verðtryggðra skuldabréfa. Stefnuyfirlýsing bankastjórnar og stýrivaxtaferillinn sem birtust í síðasta hefti Peningamála virðast því hafa haft tilætluð áhrif.

Gengi krónunnar hefur einnig hækkað umfram spár síðan í mars. Núverandi stýrivextir veita umtalsvert aðhald gagnvart verðbólguþrýstingi.

Hins vegar hefur verið meiri spenna í efnahagslífinu í ár en búist var við. Þótt þjóðhagsreikningar fyrir fyrsta fjórðung ársins virðist benda til þess að dregið hafi úr vexti innlendrar eftirspurnar hníga flestir aðrir hag-vísar í aðra átt. Gildir þá einu hvort litið er til vinnumarkaðar, fasteignamarkaðar, hlutabréfamarkaðar, væntinga- og viðhorfsvísitalna, útlána, veltu í smásöluverslun, greiðslukortaveltu eða undirliggjandi verðbólgu. Hvarvetna blasir við mikill og jafnvel aukinn vöxtur. Þétt aðhald verður því að standa lengur en áður var reiknað með," segir Davíð Oddsson.

Líklegra að verðbólga verði meiri en grunnspá sýnir

Fráviksdæmi og áhættumat sýna að líklegra er að verðbólga verði meiri en grunnspáin sýnir en að hún verði minni, samkvæmt stefnuyfirlýsingu bankastjórnar.

„Sem fyrr er gengi krónunnar stærsti áhættuþátturinn. Vegna mikillar eftirspurnar í þjóðfélaginu hefur hækkun þess undanfarna mánuði ekki skilað sér í hjöðnun verðbólgu.

Raungengi krónunnar er á ný orðið mjög hátt og felur í sér auknar líkur á gengislækkun þegar fram líða stundir. Tillit er tekið til þessarar áhættu í grunnspánni og áhættu-mati. Heimilin sækjast nú mjög eftir lánum sem bundin eru gengi lágvaxtagjaldmiðla. Hætta er á að þau vanmeti áhættuna sem í þeim felst. Viðskiptahalli var mun minni á fyrsta fjórðungi ársins en búist var við, en að teknu tilliti til óreglulegra þátta er enn langur vegur að sjálfbærri stöðu. Hækkun á gengi krónunnar undanfarna mánuði hefur verið í takti við gengisþróun annarra hávaxtagjaldmiðla. Gengi hennar er því næmt fyrir breytingum skilyrða á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Seðlabankinn reynir ekki að stýra gengi krónunnar. Hann getur hins vegar þurft að bregðast við áhrifum gengisbreytinga á verðbólgu og verðbólguvæntingar," samkvæmt stefnuyfirlýsingu bankastjórnar.

Gripið til aðgerða ef verðbólguhorfur versna marktækt

Í spánni sem birt er í Peningamálum nú verður verðbólga mjög nálægt markmiði á síðari helmingi næsta árs og markmiðið næst fyrir mitt ár 2009.

„Sökum tafa í miðlunarferlinu þyrfti umtalsvert hærri stýrivexti til þess að ná markmiðinu lítið eitt fyrr. Sá ávinningur svarar ekki kostnaði. Hins vegar mun bankastjórn grípa til aðgerða ef verðbólguhorfur versna marktækt frá því sem reiknað er með í grunnspánni nú. Að sama skapi mun bankastjórn bregðast við ef horfur batna frá því sem hér er lýst. Strangt aðhald í fjármálum hins opinbera dregur ótvírætt úr líkum á að verðbólguhorfur versni.

Í ljósi þess að mikil spenna virðist enn í þjóðarbúskapnum yrði afar óheppilegt að slaka á aðhaldi í opinberum fjármálum nú. Aukið aðhald að útgjöldum flýtir því að unnt verði að lækka vexti. Breytingar á stöðu og útlánastefnu Íbúðalánsjóðs hafa áhrif í sömu átt. Lækkun lánshlutfalls sjóðsins sem tilkynnt var 3. júlí sl. er mikilvægt fyrsta skref," að sögn Davíðs á fundi með fréttamönnum.

Peningamál Seðlabanka Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka