Hagnaður Alcoa minnkar um 3,9%

Úr álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði.
Úr álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. mbl.is/ÞÖK

Hagnaður Alcoa, næststærsta álfélags heims, nam 715 milljónum dala á öðrum fjórðungi ársins, sem er 3,9% minni hagnaður en var á sama fjórðungi á síðasta ári. Er þessi afkoma að mestu í samræmi við spár sérfræðinga. Alcoa tilkynnti jafnframt í kvöld, að yfirtökutilboð í kanadíska álfélagið Alcan hefði verið framlengt til 10. ágúst en það átti að óbreyttu að renna út á morgun.

Sölutekjur Alcoa á fjórðungnum námu 8,07 milljörðum dala, sem er 3,5% aukning milli ára. Félagið er nú annað stærsta álfélag heims á eftir rússneska álfélaginu Rusal.

Framleiðsla dróst saman í álveri Alcoa í Tennessee eftir að eldingu sló niður í spennistöð í apríl og það olli rafmagnsleysi í verinu. Þá gekk rekstur álvers í Texas einnig illa.

Alcoa er fyrsta fyrirtækið í Dow Jones hlutabréfavísitölunni, sem birtir árshlutauppgjör að þessu sinni. Gengi bréfa félagsins hækkuðu um 70 sent undir lok viðskiptadags og var skráð 42,36 dalir. Bréfin hafa hækkað um 26% á síðustu 12 mánuðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK