Verð á hráolíu hélt áfram að hækka á mörkuðum í dag. Fór verð á hráolíutunnu yfir 76 dali á markaði í Lundúnum og hefur ekki verið hærra frá því í ágúst á síðasta ári en þá fór verðið í 78,65 dali, sem er met. Sérfræðingar segja að búast megi við áframhaldandi hækkun. Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur einnig hækkað töluvert undanfarna daga en innkaupastjóri Skeljungs segir að hækkandi gengi krónunnar hafi haldið aftur af verðhækkun á eldsneyti hér á landi að undanförnu.
Verð á svonefndri Brent Norðursjávarolíu fór í dag í 76,03 dali tunnan á markaði í Lundúnum. AP fréttastofan hefur eftir sérfræðingum, að í ljósi þess að OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, takmarki áfram framboð, ástandið á olíuvinnslusvæðunum í Nígeríu sé ótryggt vegna aðgerða uppreisnarmanna, fellibyljatíminn sé framundan í Bandaríkjunum og eftirspurn eftir eldsneyti sé vaxandi þar megi búast við áframhaldandi verðhækkun.
Már Erlingsson, innkaupastjóri Skeljungs, segir að töluverð fylgni sé á milli hækkunar á hráolíuverði og hækkunar á verði á bensíni, dísilolíu, svartolíu og þotueldsneyti. Þannig hafi verð á bensíni hækkað umtalsvert frá því um miðja síðustu viku. Hækkandi gengi íslensku krónunnar hafi hins vegar gert það að verkum, að ekki hefur þurft að hækka verð á eldsneyti hér á landi að undanförnu. Ljóst sé þó, að ekki sé útlit fyrir það að verð á eldsneyti lækki á næstunni.
Að sögn danskra fjölmiðla boða dönsk olíufélög 10 aura verðhækkun á eldsneytislítra á morgun og mun bensínlítrinn þar í landi þá kosta að jafnaði 10,34 danskar krónur, jafnvirði 115,38 króna. Hér á landi er algengt verð á bensínlítra 124,60 krónur á sjálfsafgreiðslustöðvum stóru olíufélaganna.
Alþjóða orkumálastofnunin, sem veitir 26 helstu iðnríkjum heims ráðgjöf, segir að búast megi við áframhaldandi verðhækkun á olíu fram til ársins 2012 vegna þess að framboð anni ekki eftirspurn. Olíumálaráðherrar OPEC eru þessu ósammála og segja framboðið nægt. Ástæður verðhækkana megi rekja til þess að olíuhreinsistöðvar hafi ekki undan og einnig til ótryggs ástands á ýmsum olíuvinnslusvæðum.