Fiskaflinn í júní var 111.570 tonn en það er 24 þúsund tonnum minni afli en í júní 2006, þá var aflinn 135.512 tonn. Fiskistofa segir, að minni kolmunnaafli í ár skýri samdrátt í afla milli ára.
Botnfiskaflinn í júní 2007 var 42.340 tonn sem er tæplega 3 þúsund tonna meiri afli en í júní í fyrra þegar botnfiskaflinn var 39.405 tonn.
Kolmunnaaflinn í nýliðnum júní var helmingi minni en í júní 2006 eða rúmlega 34 þúsund tonn miðað við rúmlega 76 þúsund tonn í fyrra. Landað var tæplega 33 þúsund tonnum af norsk-íslenskri síld í júní 2007 en aflinn var 14 þúsund tonnum minni í júní í fyrra eða tæp 19 þúsund tonn.
Heildarafli íslenskra skipa á árinu var orðinn 858 þúsund tonn í lok júní 2007. Það er 68 þúsund tonnum meiri afli en á sama tíma á síðasta ári þegar heildaraflinn janúar til júní var 790 þúsund tonn.