Verð á hráolíu fór í dag yfir 77 dali tunnan á markaði í Lundúnum og nálgast nú óðfluga metið, sem sett var í ágúst í fyrra þegar verð á olíutunnu fór í 78,30 dali. Ástæðan fyrir hækkuninni í dag var m.a. sú að bandaríska olíufélagið Chevron varð að loka hluta af olíuvinnslu sinni á Norðursjó vegna viðhalds á mannvirkjum.
Þá sýndu tölur um eldsneytisbirgðastöðu í Bandaríkjunum, að birgðir hafa minnkað um 1,5 milljónir tunna frá því í síðustu viku.
Verð á Brent Norðursjávarolíu fór í 77,07 dali eftir klukkan 15 í dag en lækkaði á ný og var nú fyrir stundu 76,80 dalir. Hefur verðið hækkað um 9% á síðustu 10 viðskiptadögum.