Kaupþing banki hefur verið valinn besti bankinn á Norðurlöndum og einnig besti bankinn á Íslandi af alþjóðlega viðskiptatímaritinu Euromoney.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander, tók við verðlaununum, fyrir hönd bankans, við hátíðlega athöfn í Lundúnum í gærkvöldi.
Fram kemur í tilkynningu frá Euromoney að verðlaunin séu þau virtustu í hinum alþjóðlega bankaheimi. Í rökstuðningi fyrir útnefningunni er vísað til mikils vaxtar Kaupþings banka í fyrra og glæsilegrar arðsemi eiginfjár.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, segir í tilkynningu bankans að það sé sérlega ánægjulegt að hljóta þessi verðlaun á alþjóðlegum vettvangi.
"Þau eru viðurkenning á því sem við erum að gera. Staða okkar í Norður-Evrópu hefur verið að styrkjast og verðlaunin efla okkur til frekari sóknar á þessum markaði. Þetta eru verðlaun sem allir starfsmenn bankans hafa unnið fyrir; sem liðsheild náum við árangri," segir Hreiðar Már.