Fyrirtækið Icelandic Glacial, sem er í eigu Jóns Ólafssonar og sonar hans, hefur gert stóran samning við Anheuser-Busch um dreifingu á íslensku vatni í Bandaríkjunum. Anheuser-Busch er einn stærsti dreifingaraðili á drykkjarvörum í Bandaríkjunum og er talið að andvirði samningsins hlaupi á milljörðum. Sagt var frá þessu í kvöldfréttum Stöðvar 2 og jafnframt fullyrt að tilkynnt verði formlega um samninginn á morgun.
Afkastageta nýrrar átöppunarverksmiðju nærri Þorlákshöfn, sem verið er að reisa, verður þannig fullnýtt og fer varan í flestar verslanir Bandaríkjanna að því er fram kom. Verksmiðjan mun geta framleitt um 100 – 200 milljónir lítra af vatni á ári og er samningurinn líklega sá stærsti sem gerður hefur verið um vatnssölu á Íslandi.
Á vefsíðu fyrirtækisins kemur fram að fyrirtækið hafi verið stofnað árið 2004 og eru höfuðstöðvar þess í Reykjavík. Jón Ólafsson er stjórnarformaður, en Kristján sonur hans sölustjóri á Bandaríkjamarkaði.